Pennagrip
Heimasíða
SKRIFT

Hreyfingar
Aðferðir
AÐSTÆÐUR
   Verknaður
   Pennagrip
   Skrifkrampi
   Örvhendi
Viðgerðir

Orðalisti


Skiptir máli hvernig haldið er á penna? Ef skriftin er í lagi og þú finnur ekki fyrir óþægindum geturðu haldið honum hvernig sem þér sýnist. En ef þú ert með sigg á löngutöng og þig verkjar í höndina gætu breytingar orðið til batnaðar.

Þú býður vandræðum heim með að taka fast á penna. Hann má ekki vera í dauðahaldi milli þumalfingurs og löngutangar. Þannig byrjar skrifkrampi. Ef þú þrýstir þumalfingri og löngutöng saman í staðinn geturðu oftast losnað við hann.

Fyrsta pennagrip
Börn kunna ekki að halda á penna af eðlishvöt. Við verðum að kenna þeim það. Frumgripið er góð byrjun.

Leggðu fyrst saman gómana á þumalfingri og löngutöng.Leggðu svo pennan ofan á grófina milli þeirra.Að lokum leggurðu vísifingurinn ofan í pennann.


Fullorðnum kann að finnast frumgripið klunnalegt. Það er aðeins ætlað börnum sem enn hafa ekki náð tökum á fínhreyfingum.

Svona er frumgrip myndað
Byrjaðu með slaka hönd. Leggðu saman gómana á þumli og löngutöng, svolítið á misvíxl. Láttu pennann ofan á grófina milli þeirra þannig að skaftið sé við hnúann á vísifingri. Leggðu svo vísifingurinn ofan á pennann. Nú ýtir vísifingur á móti þumli og löngutöng. Það er langtum betra en að þumall og vísifingur ýti öðrum megin á pennann og langatöng hinum megin.

Skrifkrampi er sennilega versta afleiðing rangs grips. Miklu máli skiptir að komast hjá honum.

Höndin á að liggja á jaðrinum og litlafingri hálfkrepptum. Úlnliðurinn á að vera nokkurn veginn beinn. Aldrei má láta höndina vera fyrir ofan línu og skrifa niður á við eins og örvhentum hættir sérstaklega til. Um það fjöllum við nánar á síðunni um örvhendi.

Framhaldsgrip
Þegar börn stækka breytast hlutföll handarinnar. Þau skrifa hraðar og þurfa að taka öðruvísi á pennanum en áður.

Framhaldsgrip. Hér ýtir þumallinn á móti vísifingri og löngutöng.Framhaldsgripið er annað en frumgripið. Þumallinn færist upp á skaftið og ýtir á móti löngutöng og vísifingri. Við það er hættan á skrifkrampa orðin meiri en áður. Ef hans verður vart er hægt að grípa til ýmissa ráða. Það fyrsta er að færa þumalinn aftur niður á löngutöngina og mynda frumgripið. Þannig má halda pennanum þangað til krampinn hverfur. Um hann fjöllum við á síðunni um skrifkrampa.

Framhaldsgrip er frábært þegar skrifa þarf til lengdar með miklum hraða. En handastjórn þarf að vera komin vel á veg til þess að það sé til gagns.

Hálfgert nýjabrum í letursögunni er að hafa hendur á skriffærum eins og gert er nú á dögum. Til dæmis kennir skrifbók Steingríms Arasonar að handarbakinu eigi að snúa beint upp á nítjándu aldar máta.

Hvers konar penni?
Stundum er mælt með að börn noti gild skriffæri fyrst í stað. Enn hef ég ekki séð kosti þess í raun. Best er að leyfa þeim sjálfum að velja. Flest sem ég hef séð kjósa grönn sköft, til dæmis fyllingar í kúlupenna.

Hvert sinn
Í upphafi hvers skriftartíma þurfa allir að byrja með rétt grip. Að vísu aflagast það fljótlega hjá þeim börnum sem minnstan hreyfiþroska hafa. Það er ekki áhyggjuefni. Ef þau kunna rétt grip skilar það sér með tímanum. En þegar þau þurfa að grípa til þess verða þau að kunna það.Þú þarft að eiga í fórum þínum fimm eða sex þrístrenda hólka til þess að smeygja upp á blýanta. Þeir eru mjög nytsamlegir við að kenna gott grip. Þrístrendir blýantar eru líka til gagns. Ekki þarf að nota þá að staðaldri. Í hverjum bekk eru sjaldan mörg börn sem þurfa á þeim að halda.


Einn vondan ávana þarftu að uppræta strax og honum skýtur upp. Pennaskaftið má aldrei liggja samhliða þumalfingrinum. Hann ræður ekki við fínhreyfingar.