Verknaður
Heimasíða
SKRIFT

Hreyfingar
Aðferðir
AÐSTÆÐUR
   Verknaður
   Pennagrip
   Skrifkrampi
   Örvhendi
Viðgerðir

Orðalisti


Skrift er verknaður fyrst og fremst. Ef þú kennir börnum er eitt meginhlutverk þitt að fylgjast með þeim. Meðan þau skrifa þarft þú að ganga um í stofunni og skoða hverning þau fara að.

Að hverju þarf að gá?
Hver stafur þarf að byrja á réttum stað. Og penninn þarf að rata rétta slóð um stafinn, frá upphafi til enda.

Þú þarft sennilega að útskýra hverja æfingu margoft. Sumt fólk sem skrifar illa segist aldrei hafa skilið hvað kennararnir voru að tala um. Minntu á það við og við að betra sé að skrifa hægt en hratt.

Sitja börnin upprétt? Halda þau of fast á pennanum? Er pappírinn á sínum stað?
Hvernig á að sitja?
Margir hafa ekki hugmynd um hvernig best er að sitja. Er stóllinn mátulega hár? Framhandleggirnir þurfa að hvíla þægilega á borðinu.

Ekki er gott að sitja með kryppu. Rangar skriftarstellingar geta valdið alls kyns vandræðum. Fæstir gefa því gaum fyrr en horfir til vandræða.


Best er að ljósið komi frá vinstri. Annars kastar höndin á þér skugga á skriftina einmitt þar sem þú þarft að sjá til. Örvhentum skrifurum þarf vitanlega að lýsa frá hægri. Og sittu ekki með krosslagða fætur.
Hvar á að hafa pappírinn?

Rangt: Pappírinn er of langt til vinstri. Í byrjun hverrar línu sér skrifarinn ekki hvað hann er að gera.

Rétt: Pappírinn er fyrir framan skrifarann, dálítið til vinstri. Höndin skyggir ekki á.
Óþægilegt er að skrifa á eina pappírsörk á harðri borðplötu. Langtum betra er að hafa nokkrar arkir undir. Sumir kennarar mæla með skáplötu til þess að skrifa á. Hún getur vel orðið þér að gagni. (Sjálfur hef ég aldrei vanist henni.)