Fyrstu handtök í textanuddi
Heimasíða
LETURNOTKUN

Textanudd


Hvað er „textanudd“? Hér er lýsing á því. Setjum svo að flestallt sé til reiðu sem til þarf í gallalaust prentverk: blaðsíðutölin eru á réttum stað og spássíuhlutföll við hæfi. En þegar textanum er slengt í dálkana lítur hann út eins og skrattinn hafi hrært í öllu saman. Þá þarf að hnika línubili og hagræða stafabilum. Það er nudd. Svigum má lyfta og skjóta inn samsteypum (meira um þær seinna). Eftir nokkra stund er textaflöturinn orðinn að listaverki. Það er nudd.

Flest snilldarverk í leturnotkun má draga í tvo dilka. Annar er djarfur og nýtur aðdáunar. Hinn er kyrrlátur og ávinnur sér virðingu. Hér verður spjallað um fyrstu skrefin í þá áttina.
Hér er opna úr biblíu Gutenbergs. Í hverri línu eru að jafnaði sex orð. Hver getur haldið fram að tveir dálkar á síðu séu óviðeigandi?

Barningur með prentletur hefur staðið meira en fimm aldir. Þar kemur því fátt á óvart. Í smælkinu er þó víða aðgátar þörf. Nytsamlegt er að kynna sér hvað jafnvel bestu setjurum getur orðið á og sniðganga það. Rétt er að minnast á þrennt sem sérstaklega er varhugavert áður en kemur að háskalegri leturnotkun almennt.

Fyrsta. Sjálfvirk skipting milli lína er viðsjál. Aðferðin sjálf er óáreiðanleg, sérstaklega á smátölvum. Hverju orði, sem vafi leikur á, verður að fletta upp. Og varla verður komist upp með að skipta orðum milli lína í meira en þremur línum í röð.

Önnur. Villuleitarforritum er ekki treystandi. Þau hafa uppi á orðum sem ekki er að finna í stafsetningarorðabókum. En villurnar, sem eftir sitja, gætu bent til þess að höfundurinn væri galinn.

Þriðja. Vélritarar geta verið háskalegir. Þeir hafa tvö orðabil á eftir punkti og spannarlangan inndrátt við greinaskil. Áreiðanlegu atvinnufólki er ekki betur treystandi en öðrum. Því var gjarna innrætt bull af ýmsu tagi þegar það lærði vélritun.

Dálkbreidd
Línulengd þarf að velja af gaumgæfni. Breytingar á henni seinna meir geta ónýtt önnur verk, til dæmis skiptingu milli lína.


Flestir hafa vanist því að lesa dagblöð með um 40 stöfum í hverri dálklínu. Meira en 60 stafir í línu valda þeim óþægindum. Minna má á að í Biblíu Gutenbergs, einu af fremstu snilldarverkum prentsögunnar, eru tveir dálkar á hverri síðu.

Ekki draga inn fyrstu málsgrein
Inndráttur sýnir skil milli tveggja efnisgreina. Þess vegna er hvorki þörf á inndrætti í fyrstu efnisgrein né í efnisgrein sem kemur á eftir undirfyrirsögn. Hins vegar getur síðasta lína í efnisgrein náð þvert yfir dálkinn og rynni þá saman við þá næstu ef enginn væri inndrátturinn.

Oft hefur þessi regla verið sniðgengin, ekki síst í dagblöðum. Fréttir geta breyst skömmu áður en þær fara í prentun. Þá gefst varla tími til að hagræða texta svo að leturnotkunin sé til fyrirmyndar. Þegar tölva lagfærir textadálkinn fækkar afsökunum fyrir að draga inn fyrstu efnisgrein.

Fremur skáletur en hástafir
Hástafir í stórum stíl spilla áferðinni í textadálki. Óprýði er að orði eins og FRAMKVÆMDANEFNDIN. Þess í stað er betra að nota skáletur.

Ef það hefur dekkri áferð en antikvaletrið (það lóðrétta) má glenna það smávegis.

Línubil
Línubil er mælt frá einni grunnlínu til annarar. Þetta getur verið til vandræða. Það sem augað sér skiptir meira máli en það sem mælt er með kvarða. Augað sér hvíta bilið milli lína. Hér er dæmi.

Á nafnspjöldum er götuheiti, borgarnafn og símanúmer venjulega hvert í sinni línu. Símanúmerið sýnist oft heldur nálægt næstu línu fyrir ofan. Þetta stafar af því að tölur eru hærri en litlu stafirnir svo að hvíta bilið minnkar. Stærra bil fer oft betur í línu með mörgum tölum og hástöfum.

Grunnlínu lyft
Að jafnaði falla svigar vel að lágstöfum. Þegar þeir standa með hástöfum: (Tt) sýnast þeir yfirleitt heldur lágir. Hér væri til bóta ef grunnlínu vinstra svigans væri hnikað upp á við. Ýmis önnur greinarmerki eru of lág fyrir stóru stafina. Bandstrik eitt af þeim: í a-ö lítur það vel út, í A-Ö lendir það of neðarlega.

Samsteypum skotið inn
Í gamla daga voru samsteypur, sem sumir kalla samlíminga, nauðsynlegar. Án þeirra leit blýletur mjög illa út. Sumir stafirnir röðuðust svo illa saman að ljósar skellur mynduðust í textanum. Verstur var stafurinn f. Til að ráða bót á verstu göllunum voru gerðar samsteypur: stafir sem steyptir voru saman í einu lagi. Ekki eru þær bráðnauðsynlegar lengur, en fága vissulega yfirbragðið. Margar leturgerðir hafa f-i og f-l samsteypur. Með stafaleit í ritvinnslu er vandalaust að setja þær á sinn stað.

Að lokum ...
Nokkrar bækur er ómaksins vert að líta í. The Art of the Printed Book 1455 to 1955 eftir Joseph Blumenthal væri góð byrjun. Hún er til í Þjóðarbókhlöðunni og fáanleg á millisafnaláni. Þá mætti mæla með The Typographic Book eftir Stanley Morison og Kenneth Day. Velja má úr þessum bókum nokkrar eftirlætissíður og líkja eftir þeim eins nákvæmlega og tækjakostur leyfir: lærir sá er líkir eftir. Og ekkert veit ég sem betur kennir að nota augun en grandskoðun.

Það margborgar sig að læra reglurnar og fylgja þeim eftir bestu getu. Þeir fáu sem það gera geta komist í hóp meistaranna.Þessar línur birtust fyrst árið 1990 sem ítarefni í kennslu Ara Davidow við The New School of Social Research í New York. Þær voru gefnar út árið 1993 í Computers and Typography, sem Rosemary Sassoon ritstýrði.